EFTA dómstólinn hefur ógilt ákvörðun ESA um að opna ekki formlega rannsókn á útboði á tveimur ljósleiðaraþráðum í eigu NATO. Niðurstaða EFTA dómstólsins felur í sér að ESA mun endurupptaka málið og hefja formlega rannsókn á næstu vikum á því hvort ríkisaðstoð sé fyrir hendi og hvort hún sé ólögmæt. Í tilkynningu segir að niðurstaða EFTA dómstólsins feli ekki sér neina efnislega afstöðu um ríkisaðstoð.

Í júní 2008 buðu Ríkiskaup f.h. Varnarmálastofnunar út til leigu og starfrækslu tvo ljósleiðaraþræði í eigu NATO. Í útboðinu var lögð sérstök áhersla á að örva samkeppni. Fjarskipti, sem rekur fjarskiptaþjónustu undir merkjum Vodafone, voru eitt þeirra fyrirtækja sem gengið var til samninga við á grundvelli útboðsins og lá samningur fyrir í febrúar 2010.

Í kjölfarið kvartaði Míla til Eftirlitsstofnunar EFTA og taldi að samningurinn fæli í sér ólögmæta ríkisaðstoð þar sem Míla hefði í reynd verið útilokuð frá þátttöku í útboðinu vegna framangreindrar áherslu á samkeppni, en Míla var eigandi ljósleiðara sem lagðir höfðu verið af íslenska ríkinu um land allt auk þess að starfrækja eigið gagnaflutningskerfi á kopar.