ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, hefur ályktað að verðið sem ákveðið hafi verið í raforkuviðskiptum Landsvirkjunnar og Elkem feli ekki í ríkisstuðning. Orkuverðið hafi verið ákveðið af sjálfstæðum sérfræðingum sem hafi unnið samkvæmt skýrum hlutlægum viðmiðum sem endurspegli markaðsskilyrði. Frá þessu er greint í frétt á vef EFTA .

Elkem á Íslandi framleiðir kísil í verksmiðju félagsins á Grundartanga. Elkem hefur keypt raforku frá Landsvirkjun frá árinu 1975, en árið 2007 var gert samkomulag um að ef upp komi ágreiningur um raforkuverð skuli deilunni vísað til sérfræðinganefndar. Tíu árum seinna óskaði Elkem eftir að nefndin yrði kölluð til og í maí sl. birti nefndin niðurstöðu sína. Orkuverðið sem ákveðið var af nefdinni tók gildi frá 1. apríl sl..

Með úrskurði sínum í dag hefur Eftirlitsstofnun EFTA staðfest að orkuviðskipti Elkem og Landsvirkjunnar hafi ekki skekkt samkeppni á markaðinum eða veitt einu fyrirtæki forskot fram yfir önnur í sama rekstri.