Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) tilkynnti fyrr í dag að stofnunin hafi hafið formlega rannsókn á endurfjármögnun íslenska ríkisins á tryggingafélaginu Sjóvá.

Rannsóknin snýr að því að íslenska ríkið lagði fram 11,6 milljarða króna eiginfjárframlag til Sjóvá við endurfjármögnun félagsins árið 2009, en það hafði verið gert tæknilega gjaldþrota af fyrri eigendum. Ríkið greiddi fyrir með skuldabréfum útgefnum af Landsvirkjun og Askar Capital sem voru í eigu þess. Við það eignaðist ríkið 73% hlut í Sjóvá.

Björgunaraðgerð í þágu ógjaldfærs tryggingafélags sem engir markaðsfjárfestar hefðu fjárfest í

Það er frummat ESA að með þessum viðskiptum hafi íslenska ríkið leitt björgunaraðgerðir í þágu ógjaldfærs tryggingafélags án þess að tilkynna það til ESA líkt og lög mæli fyrir um. Í tilkynningu frá ESA segir að „fram til þessa hafa íslensk stjórnvöld haldið því fram að viðskiptin hafi verið gerð á markaðsforsendum og því hafi engrar tilkynningar verið þörf. ESA hefur þó efasemdir um að markaðsfjárfestar hefðu farið út í slíka fjárfestingu í júlí 2009.”

ESA hóf rannsókn á fjármögnun Sjóvár af eigin frumkvæði eftir að íslenskir fjölmiðlar höfðu fjallað ítarlega um það. Síðar barst einnig kvörtun vegna fjármögnunarinnar frá VÍS, keppinauti Sjóvár.

Íslenska ríkið þarf nú að færa rök fyrir því að gripið var til endurfjármögnunar Sjóvár með þessum hætti og að það hafi verið gert á þjóhagslegum grunni.