Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) telur að íslensk lög tryggi ekki réttinn til að bera athafnaleysi stjórnvalda varðandi mat á umhverfisáhrifum undir óháðan og óhlutdrægan úrskurðaraðila eins og skylt er að veita á evrópska efnahagssvæðinu. Þetta kemur fram í rökstuddu áliti sem stofnunin sendi frá sér í gær.

ESA telur að Ísland hafi ekki innleitt ákvæði tilskipunar 2011/92/ESB um mat á umhverfisáhrifum að fullu. Tilskipunin kveður á um að EES-ríki tryggi að almenningur eigi kost á að leita endurskoðunar fyrir dómstólum eða eigi aðgang að öðrum sambærilegum úrskurðaraðilum. Þegar ákvarðanir eru teknar á grundvelli tilskipunarinnar þá á almenningur, þ.m.t. umhverfissamtök, að eiga kost á kæruleið. Sú kæruleið á að vera í boði hvort sem kæra lýtur að efnislegum atriðum, málsmeðferðarreglum eða athafnaleysi stjórnvalda, þ.e. þegar deilt er um hvort að stjórnvaldi hafi verið skylt að taka ákvörðun samkvæmt lögum.

Rökstutt álit er annað skrefið í meðferð samningsbrotamála hjá ESA. Íslensk stjórnvöld hafa nú tvo mánuði til að bregðast við álitinu en eftir það getur ESA vísað málinu til EFTA-dómstólsins.