*

laugardagur, 29. janúar 2022
Innlent 18. desember 2020 10:34

ESA samþykkir 15 milljarða til Isavia

Á komandi ári verður unnin greining á tjóni Isavia vegna faraldursins og verði veitt aðstoð meiri en tjónið verður mismunurinn endurgreiddur.

Jóhann Óli Eiðsson
Haraldur Guðjónsson

Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) samþykkti í dag þá ráðstöfun ríkisins að hækka hlutafé í Isavia til að bæta félaginu það tjón sem hefur hlotist af Covid-19 faraldrinum. Alls mun hlutafjárhækkunin nema 15 milljörðum króna.

Sem kunnugt er hefur starfsemi Keflavíkurflugvallar verið í mýflugumynd miðað við það sem vant er sökum ferðatakmarkana til að hefta útbreiðslu veirunnar. Ekki liggur við sér hvenær íbúar jarðarinnar munu verða ferðaglaðir á ný og starfsemi vallarins komast á fulla ferð á ný. Alls hefur samdrátturinn í flugferðum, samanborð við síðasta ár, verið 90%.

Hlutafé í Isavia var hækkað um fjóra milljarða króna í vor og standa því ellefu milljarðar eftir. Heimildin til hlutafjárhækkunar er veitt til næsta árs. Á komandi ári verður unnin greining á tjóni Isavia vegna faraldursins og verði það niðurstaðan að veitt aðstoð hafi verið meiri en tjónið mun félagið endurgreiða eigandanum mismuninn.

Ákvörðunina í heild sinni má lesa inn á vef ESA.