Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur samþykkt breytingu á björgunaraðstoð vegna smærri sparisjóða hér á landi. Stjórnvöldum er gefinn frestur til 30. apríl 2011 til að leggja fram áætlanir um endurskipulagningu eða slit sjóðanna.

Fréttatilkynning ESA:

„Þann 21. júní 2010 heimilaði Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) ríkisstyrkjakerfi vegna björgunar á smærri sparisjóðum og gilti sú heimild í sex mánuði. [1] Aðstoðarkerfið varðar meðhöndlun krafna sem Seðlabanki Íslands (SÍ) eignaðist í kjölfar falls Sparisjóðabanka Íslands hf. á árinu 2009. Eftirtaldir sparisjóðir njóta góðs af aðstoðarkerfinu:

  • Sparisjóður Norðfjarðar
  • Sparisjóður Vestmannaeyja
  • Sparisjóður Svarfdæla
  • Sparisjóður Bolungarvíkur
  • Sparisjóður Þórshafnar

Samþykki ESA á aðstoðarkerfinu var bundið því skilyrði að íslensk stjórnvöld legðu fram fyrir hvern sparisjóð áætlun um endurskipulagningu rekstrar eigi síðar en 21. desember 2010. Þá byggði ESA samþykki sitt á leiðbeinandi reglum vegna fjármálakreppunnar. [2]

Í kjölfar tveggja dóma Hæstaréttar Íslands frá júní 2010 um ólögmæti gengisbundinna lána var hins vegar nauðsynlegt að endurskoða skuldauppgjör þriggja sparisjóða við SÍ, þ.e. sparisjóða Vestmannaeyja, Þórshafnar og Svarfdæla. Auk þess að tilkynna um breytingar á því kerfi sem ESA hafði samþykkt, óskuðu íslensk stjórnvöld eftir framlengingu á skilafresti á áætlunum um endurskipulagningu til 30. apríl 2011.

Í ákvörðun sinni í dag kemst ESA að þeirri niðurstöðu að tilkynntar breytingar séu samþýðanlegar EES samningnum og framlengir jafnframt fresti íslenskra stjórnvalda til að leggja fram áætlanir um endurskipulagningu eða slit til 30. apríl 2011.“