ESA hefur samþykkt þær breytingar sem gerðar hafa verið á lögum og reglum um Ríkisútvarpið. Þessum lögum og reglum var breytt eftir að ESA gerði athugasemdir við fyrirkomulag á fjármögnun RÚV. ESA gerði grein fyrir samþykki sínu í dag.

Markmið breytinganna var að stuðla að frekara gagnsæi varðandi opinber fjárframlög til Ríkisútvarpsins og að draga úr hættu á samkeppnisröskun á þeim markaði þar sem Ríkisútvarpið starfar.

Nýju reglurnar fela meðal annars í sér að RÚV þarf nú að óska eftir heimild mennta- og menningarmálaráðherra fyrir nýrri fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu. Jafnframt skal RÚV óska eftir mati fjölmiðlanefndar á nýrri fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu og ítarlegur rökstuðningur og fjárhagsáætlun þurfa að liggja fyrir.