ESA, eftirlitsstofnun EFTA, hefur samþykkt ríkisaðstoð sem Sjóvá fékk í kjölfar bankahrunsins 2008. Í frétt á vefsíðu stofnunarinnar er haft eftir Oda Helen Sletnes, forseta hennar, að hhún fagni því að hægt sé að samþykkja endurfjármögnun Sjóvár. Skuldbindingar sem félagið hafi undirgengist gagnvart ESA lágmarki neikvæð áhrif ríkisaðstoðar án þess að ógna endurreist félagsins.

Þá telur hún einnig af hinu góða að íslensk yfirvöld hafi nú skuldbundið sig til að endurskoða tryggingalöggjöf til að opna á aukna samkeppni og betri þjónustu við viðskiptavini.

Sjóvá komst í fjárhagsvandræði í bankakreppunni. Í tilkynningu ESA segir að orsökin hafi legið í áhættusömum fjárfestingum fyrri eigenda tryggingafélagsins í aðdraganda kreppunnar. Fjármálaeftirlitið hóf rannsókn fyrri part árs 2008 og Glitnir, stærsti kröfuhafi Sjóvár, tók félagið yfir í ársbyrjun 2009. Hafin var endurreisn tryggingahluta Sjóvár. Íslenska ríkið samþykkti að taka þátt í endurskipulagningunni og eignaðist stærstan hluta hlutafjár í tryggingafélaginu, þrátt fyrir að vera ekki kröfuhafi þess. Ríkið seldi síðar hlut sinn til hóps fjárfesta.

Árið 2010 hóf ESA formlega rannsókn á aðkomu íslenska ríkisins að björgun Sjóvár. Ári síðar kynntu íslensk yfirvöld stofnuninni endurreisnaráætlun fyrir tryggingafélagið. Sú áætlun hefur síðan verið aukin og endurbætt. Þá hefur skuldbindingum af hálfu Sjóvár og íslenskra yfirvalda verið bætt við áætlunina. Á grundvelli þessa hefur ESA nú tekið formlega ákvörðun um að björgun tryggingafélagsins hafi verið samrýmanleg EES samningnum.

Sjóvá mun undirgangast skuldbindingar hvað varðar verðlagningu trygginga til tiltekinna hópa viðskiptavina. Tilgangur þessa er að draga úr neikvæðum áhrifum ríkisaðstoðarinnar á samkeppni á tryggingamarkaði. Þá er Sjóvá óheimilt að eignast verulegan hlut í öðru fjármálafyrirtæki án samþykkis ESA. Þessar takmarkanir munu halda gildi sínu til ársloka 2014. Loks munu íslensk yfirvöld endurskoða löggjöf sína á sviði tryggingasamninga í þeim tilgangi að auðvelda viðskiptavinum að skipta um tryggingafélag og til að efla samkeppni á tryggingamarkaðnum.