Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur gefið út rökstutt álit um að Ísland hafi ekki brugðist við með réttum hætti við innleiðingu á reglugerð um alþjóðlega reikningsskilastaðla.

Íslensk stjórnvöld höfðu aðlögunartíma til að innleiða reglugerðina í lög fram til 30. maí 2009. Útgáfa rökstudds álits er annað stig formlegrar málsmeðferðar hjá ESA ef ríki bregðast ekki við innleiðingu með réttum hætti, en fyrst er send formleg athugasemd. Ef íslensk stjórnvöld verða ekki við óskum ESA innan tveggja mánaða getur stofnunin vísað málinu til EFTA-dómstólsins til úrskurðar um hvort að þau hafi brotið gegn samningnum um Evrópska Efnahagssvæðið (EES).

Í áliti ESA segir að alþjóðlegir reikningsskilastaðlar séu mikilvægt tól innan fjármálamarkaða Evrópusambandsins (ESB) til að samræma fjárhagslegar upplýsingar allra skráðra fyrirtækja sem tilheyra EES-svæðinu. Tilgangurinn er að stuðla að meira gegnsæi.