*

miðvikudagur, 16. júní 2021
Innlent 7. maí 2018 08:52

ESA segja Norðmenn mismuna

Eftirlitsstofnun EFTA stefnir stjórnvöldum í Noregi fyrir dómstól og segja þá mismuna gagnvart feðrum í fæðingarorlofi.

Ritstjórn
Höfuðstöðvar ESA eru í Brussel.

ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, telur að norskar reglur um greiðslur í fæðingarorlofi mismuni á grundvelli kynferðis, sem er brot á reglum EES.

Því hefur stofnunin ákveðið að stefna stjórnvöldum í landinu fyrir EFTA dómstólnum. Stjórnvöld í Noregi segja þvert á móti að Evróputilskipanir um jafna meðferð eigi ekki við í þessu tilviki.

Í Noregi eru ákveðin takmörk á þeim upphæðum sem hægt er að greiða í fæðingarorlofi, en þær ná einungis til karla. Samkvæmt norska kerfinu þá er réttur karlmannsins til fæðingarorlofs háður atvinnu konunnar. Það sama gildir ekki um rétt konunnar gagnvart atvinnu karlsins.

Það þýðir því að réttur karla til fæðingarorlofs eru takmarkaðri, sem að mati ESA brýtur gegn Evróputilskipun um jafna meðferð.

Bente Angell-Hansen forseti ESA segir jafna meðferð fólks fyrir lögum vera grundvallaratriði í lögum Evrópska efnahagssvæðisins. „Reglur EES skuldbinda Noreg ekki til að bjóða upp á fæðingarorlofsgreiðslur,“ segir Angell-Hansen.
„Að meti ESA, ef slíkt kerfi er til staðar, þá verður það að vera byggt á jafnri meðferð.“

Vísun málsins til dómstólsins er þriðja og síðasta stig afskipta ESA að málinu í Noregi, og nú er komið að EFTA dómstólnum að skera úr um málið.

Stikkorð: ESB Noregur ESA EFTA fæðingarorlof Bente Angell-Hansen