Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) ákvað í dag að stefna Íslandi fyrir EFTA-dómstólinn í tveimur málum. Málin varða tvær tilskipanir um innleiðingu á auglýsingu og staðlaðra upplýsinga um neytendalán og undirbúning, markaðssetningu og notkun á lyfjablönduðu fóðri. Tilskipanirnar átti að innleiða fyrir 1. nóvember í fyrra.

Í umfjöllun ESA segir að fyrri tilskipunin taki til auglýsinga og staðlaðra upplýsinga sem veita þarf neytendum og er þar af leiðandi mikilvæg fyrir neytendavernd. Tilskipunin gegnir einnig mikilvægu hlutverki í samræmingu rammalöggjafar EES réttar og styrkingu innri markaðarins varðandi neytendalán. Tilskipunin gildir um neytendalán á milli 200 evra og 75 þúsund evra. Húsnæðislán og lán tengd kaup á landi eða fasteign eru hins vegar undanskilin gildissviði tilskipunarinnar.

Hin tilskipunin sem trassað var að innleiða fjallar um undirbúning, markaðssetningu og notkun á lyfjablönduðu dýrafóðri. Í umfjöllun ESA segir að slík lyfjagjöf þurfi að vera í samræmi við reglur um dýralyf. Reglurnar eru mikilvægar til að tryggja að leifar lyfjanna sé ekki að finna í kjöti sem ætlað er til manneldis.