ESA hefur enn ekki samþykkt endurskipulagningu Sparisjóðs Bolungarvíkur, Sparisjóðs Svarfdæla og Sparisjóðs Þórshafnar. Málið strandar á íslenskum stjórnvöldum. Oda Helen Sletnes, forseta Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA), segir íslensk stjórnvöld verða að taka endanlega ákvörðun um framtíð þeirra, ýmist leggja fram áætlun sem sýni fram á rekstrarhæfi sparisjóðanna til lengri tíma eða setja þá í slitameðferð.

ESA samþykkti í dag ríkisaðstoð vegna endurreisnar Sparisjóðs Norðfjarðar og Sparisjóðs Vestmannaeyja. Aðstoðin var veitt og samþykkt tímabundið í júní 2010 og apríl 2011 sem hluti af aðstoðaráætlun til björgunar fimm smærri sparisjóða. Af sparisjóðunum þremur sem út af stóðu er búið að sameina Sparisjóð Svarfdæla og Sparisjóð Þórshafnar í einn, þ.e. Sparisjóð Norðurlands.

Í tilkynningu ESA er haft eftir Sletnes að það sé miður hversu langan tíma það hafi tekið að ljúka gerð trúverðugrar áætlunar um endurskipulagningu sparisjóðanna sem enn hafi ekki fengið græna ljósið hjá ESA. Ekki kemur fram í tilkynningunni um hvaða sparisjóði sé um að ræða og sendi því VB.is fyrirspurn um málið til ESA. Í svari ESA kom fram hverjir sparisjóðirnir þrír eru.