Matvælastofnun (MAST) uppgötvaði ekki suma annarka í matvælaframleiðslu hér á landi við opinbert eftirlit fyrr en Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, vakti athygli á málinu. Mat ESA er að íslensk yfirvöld þurfi að bæta opinbert eftirlit með framleiðslu alifuglakjöts til að tryggja að það samræmist EES-reglum um matvælaöryggi. Á meðal þess sem ESA telur upp eru annmarkar á hönnun og viðhaldi bygginga og búnaðar sem og verkferlum við þrif, ófullnægjandi örverufræðilegt eftirlit með alifuglakjöti og öðrum alifuglaafurðum og ófullnægjandi innra eftirlit matvælaframleiðenda með eigin framleiðslu.

ESA gerði útttekt á málinu í nóvember í fyrra og hefur nú fjallað um málið í skýrslu , sem kom út í dag.

Í skýrslunni segir að hér á landi sé til staðar opinbert eftirlit með framleiðslu alifuglakjöts og öðrum alifuglaafurðum og sé það í samræmi við EES-löggjöf. Alhliða þjálfun hafi verið veitt og gæða- og áhættustjórnunarkerfi verið sett upp. Úttekt ESA leiddi engu að síður í ljós ákveðna annmarka á því opinbera eftirliti sem fram fer á Íslandi. Þar á meðal er að eftirlit í sláturhúsum, fyrir og eftir slátrun, var á hendi starfsmanna sláturhúsa sem höfðu ófullnægjandi þjálfun til verksins og án þess að opinberir dýralæknar væru viðstaddir og sinntu eftirliti. Að auki höfðu starfsleyfi verið veitt án þess að skilyrði EES-löggjafar væru að fullu uppfyllt.