Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur birt endanlega úrskurði sína í málum sem snerta aðstoð íslenska ríkisins við nýju bankana þrjá. Þar kemur fram að sú ákvörðun íslenskra stjórnvalda að skipta Glitni, Kaupþingi og Landsbanka í tvennt og veita nýju bönkunum ýmsa aðstoð hafi verið í samræmi við reglur EES. Ástæðan fyrir því að ESA hóf rannsókn á aðstoðinni árið 2010 var sú að hún var veitt án þess að samþykki ESA hafi verið fengið.

Oda Helen Sletnes, forseti ESA, segir á vef stofnunarinnar að Íslandi hafi tekist vel til að bæta regluumhverfi bankanna. Enn eigi eftir að takast á við ákveðin verkefni áður en framtíð bankanna verði talin tryggð til lengri tíma, en almennt sé hún ánægð með árangurinn.

Í tilkynningu á vef ESA segir jafnframt að samþykki ESA fyrir ótakmarkaðri tryggingu á innstæðum í íslenskum bönkum renni út í árslok 2014. Ísland hefur m.ö.o. tæpt ár til að afnema þessa ótakmörkuðu innstæðutryggingu.