Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur auglýst eftir athugasemdum vegna rannsóknar sinnar á þeirri ríkisaðstoð sem íslenska ríkið veitti vegna endurreisnar tiltekinnar starfsemi Kaupþings, Glitnis og Landsbanka og vegna stofnunar og fjármögnunar nýrra banka á grunni þeirra allra.

ESA hefur þegar ákveðið að hefja formlega rannsókn á málinu þar sem bráðabirgðaniðurstaða hennar er sú að fjármögnunarráðstafanirnar og sú sérstaka lausafjárfyrirgreiðsla sem gömlu og nýju bankarnir fengu hafi falið í sér ríkisaðstoð í skilningi EES-samningsins. Áhugasamir, til dæmis samkeppnisaðilar eða aðrir hagsmunaaðilar, geta nú lagt fram athugasemdir við ákvörðun ESA um að hefja rannsókn til 10. mars.