Guðlaugur Þór Þórðarson þingmaður Sjálfstæðisflokksins segir að þjóð sem ætli að ganga í ESB verði að vera með ríkisstjórnarmeirihluta sem vilji ganga í Evrópusambandið.

Einnig segir hann hina séríslensku kíkja-í-pakkann umræðu um aðildarviðræður vera marklausa og ekki í samræmi við raunveruleikann, sem sé að gangast þurfi undir regluverk sambandsins ef gengið er inn í það.

Eins og Viðskiptablaðið hefur talað um áður er í dag lokatilraun stjórnarandstöðuflokkanna fjögurra sem fyrir voru á þingi, auk Viðreisnar til að ná saman um stjórnarmyndun.

ESB erfitt deilumál í viðræðum

Líklegt er talið að líkt og í fyrri stjórnarmyndunarviðræðum Viðreisnar og Bjartrar framtíðar við Sjálfstæðisflokkinn verði aðild að ESB erfitt deilumál.

Benedikt Jóhannesson formaður Viðreisnar hefur talað fyrir tvöfaldri atkvæðagreiðslu þar sem fyrst yrði kosið um áframhald viðræðna og svo um aðildina sjálfa.

„Vandinn er í fyrsta lagi sá að Evrópusambandið er ekkert að stækka,“ segir Guðlaugur Þór.

„Í öðru lagi þá er ég nýkominn af fundi þar sem hugveitur federalista, þeirra sem vilja ganga lengst fram í samruna Evrópu, komu fram með skýrslu sem segir krísur vera orðnar að norminu í sambandinu. Í skýrslunni tilgreina þeir öll þau stóru vandamál sem sambandið glímir við núna og þær sem eru á leiðinni.“

Umræðan skrýtin hér á landi

Guðlaugur segir það stundum skrýtið að taka þátt í umræðu um aðild að Evrópusambandinu hér á landi og hvað í því felist.

„Evrópusambandið er til, það var síðast um daginn sem prestur á Akureyri fékk enn eina staðfestinguna á því að Evrópusambandið er til og til þess að ganga í það þá þarf að undirgangast reglur þess,“ segir Guðlaugur Þór.

„Ef rýniskýrslurnar eru lesnar þá ganga þær út á það að hér þurfi að breyta þessu og hinu til þess að ganga í Evrópusambandið, og er ætlast til þess að það sé gert áður en gengið er inn. Þetta hefur verið svona síðan þeir breyttu verklaginu þegar lönd Austur-Evrópu voru tekin inn.“

Ekki trúverðugt að hefja viðræður

Guðlaugur segir engar varanlegar undanþágur í boði í sjávarútvegsmálum eða öðrum málum.

„Þær verða að vera partur af sameiginlegri sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins, en sambandið getur breytt henni og svo hefur markmiðið verið að minnka vægi neitunarvaldsins enn meira en nú er,“ segir Guðlaugur Þór.

„Það yrði erfitt fyrir íslenska stjórnmálamenn að útskýra það að þeir séu að sækja um aðild til að komast að því hvað felst í aðildinni. Það yrði alltaf holur hljómur í slíkri nálgun og ekki trúverðugt fyrir Íslendinga að ganga fram með þeim hætti.“

Ætluðu að byrja á landbúnaðar og sjávarútvegskaflanum

Guðlaugur minnir á að stuðningsmenn aðildar hafi sagt að aðildarviðræðurnar tækju 12 til 18 mánuði.

„Steingrímur J. sagði að þeir myndu byrja á landbúnaðar- og sjávarútvegskaflanum, og sjá hvernig það gengi og hætta svo, en við höfum aldrei fengið að sjá rýniskýrslur um þá málaflokka,“ segir Guðlaugur Þór sem bendir á að IPA styrkirnir hafi verið aðlögunarstyrkir.

„Þar áttum við að greiða helming og Evrópusambandið helming og nýta átti fjármagnið þannig að við gætum breytt kerfunum okkar. Var það í öllu milli himins og jarðar, til dæmis hvernig við flokkum íslenska náttúruflóru og var kostnaðurinn náttúrulega mikill. Ipa styrkirnir eru aðlögunarstyrkir.“