Sú ákvörðun nýrrar ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks að hætta aðildarviðræðum við ESB hefur vakið töluverða athygli í fjölmiðlum ytra og er í raun eina stefnumál stjórnarinnar sem eitthvað er fjallað um í erlendum miðlum í dag.

Meðal miðla sem fjallað hafa um stefnumál nýrrar stjórnar má nefna Reuters, Washington Post, Telegraph og Börsen. Í öllum þessum miðlum eru Evrópumálin aðalatriðið og jafnvel eina umfjöllunarefnið.

Í frétt Telegrap er bent á að ekkert ríki hafi áður hætt aðildarviðræðum við ESB áður en samningur hefur klárast, en norskir kjósendur greiddu hins vegar atkvæði gegn inngöngu árið 1972 að undangengnum samningaviðræðum.