Garðyrkjubændur innan Evrópusambandsins fá 125 milljónir evra, sem svarar til 19 milljörðum íslenskra króna, í bætur vegna áhrifa innflutningsbanns Rússa á evrópskar vörur sem sett var á 7. ágúst síðastliðinn. Fram kemur í samþykkt framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins að bæturnar komi í stað þeirra vara sem ekki verði fluttar út vegna bannsins í það heila ár sem það á að vera í gildi. Í staðinn verður ávöxtunum og grænmetinu dreift frítt í skólum, sjúkrahúsum og öðrum stofnunum.

Breska útvarpið ( BBC) hefur eftir Dmitry Medvedev, forsætisráðherra Rússlands, að hann teldi innflutningsbannið ekki hafa áhrif á vöruverð. Medvedev vonaðist á sama tíma til þess að bannið myndi ekki vara í langan tíma. Hann bindur hins vegar vonir við að bannið gefi rússneskum garðyrkjubændum byr í seglin enda stækki heimamarkaður þeirra umtalsvert.

Í BBC er bent á að bannið komi helst niður á nágrönnum Rússa í Póllandi og Litháen en þaðan er mest af ávöxtum, grænmeti og hnetum flutt út til Rússlands.