Evrópusambandinu (ESB) hafa ekki borist neinar tilkynningar frá stjórnvöldum hér um að aðildarviðræðum hafi verið slitið. Bloomberg-fréttastofan hefur í dag eftir talsmanni Stefan Füle, stækkunarstjóra ESB, að beðið sé úttektar Íslendinga á framtíð aðildarviðræðna.

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra hefur sagt að hann sé ekki bundinn af þingsályktun fyrri ríkisstjórnar um aðildarviðræður við Evrópusambandið, samninganefnd Íslands verði leyst upp, aðeins sé spurning um hvenær og hvernig. Hann tilkynnti á fundi með Füle í Brussel í júní að stjórnvöld ætli að gera hlé á aðildarviðræðunum.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði hins vegar í samtali við RÚV um helgina að ef slíta eigi aðildarviðræðum við ESB þurfi að bera þá ákvörðun undir þingið. Næsta skref sé hins vegar að bíða niðurstöðu skýrslu utanríkisráðherra um árangur viðræðnanna fram til þessa.