Lord Hill, fullrúi Bretlands í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, hyggst birta drög að nýjum skattareglum sem munu hafa áhrif á alþjóðleg stórfyrirtæki sem skilað hafa hagnaði yfir 750 milljónum evra. Í reglunum felst að fyrirtækin þurfa að gera nákvæmari grein fyrir þeim sköttum sem þau greiða og í hvaða Evrópulandi.

Reglubreytingin kemur í kjölfarið af birtingu títtnefndra Panamaskjala. Lord Hill segir að þetta sé vönduð og metnaðarfull áætlun sem er til þess fallin að auka gagnsæi í skattamálum alþjóðlegra fyrirtækja.

Reglurnar munu ná til fyrirtækja sem gera grein fyrir um 90% af tekjum sínum innan aðildarríkja Evrópusambandsins. Tillögurnar gera ráð fyrir að fyrirtækin birti upplýsingar á borð við heildarveltu, hagnað fyrir skatt, uppsafnaðar tekjur og sundurliðun á greiddum sköttum.

Tillagan kemur í kjölfarið af því að leiðtogar G-20 ríkjanna samþykktu að taka þátt í áætlun OECD sem hefur það að markmiði að auka aðhald og eftirlit með skattgreiðslu stórfyrirtækja.