Töluverðar umræður spunnust um gjaldmiðlamál á fundi VÍB um efnahagsmál á Hótel Nordica í kvöld. Meðal ræðumanna á fundinum var Martin Wolf, yfirhagfræðingur Financial Times, og sagði hann að Ísland hefði komið betur út úr kreppunni en margar Evrópuþjóðir og þakkaði hann m.a. krónunni um. Vegna hennar og möguleikans á gjaldfellingu hefði Ísland komist hjá sumum þeim vandræða sem aðrar þjóðir þyrftu nú að glíma við. Auk Wolfs voru Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, Katrín Ólafsdóttir, lektor í Háskólanum í Reykjavík og Heiðar Már Guðjónsson, fjárfestir, með framsögu á fundinum.

Sagði hann að vissulega hefði krónan ákveðinn óstöðugleika og óhagkvæmni í för með sér, enda Ísland ekki stórt mynt- eða hagkerfi, en ekki mætti halda að upptaka annars gjaldmiðils fæli ekki í sér annars konar kostnað. Gengisfall eins og það sem varð haustið 2008 leiddi vissulega til verðbólgu, en ef möguleikinn til gengisfalls væri ekki til staðar hefði hagkerfið þurft að aðlagast með öðrum hætti að breyttum aðstæðum, eins og t.d. með meira atvinnuleysi.

Staða Íslands til lengri tíma mjög góð

Sagði Wolf hins vegar að ef vilji væri fyrir því að taka einhliða upp gjaldmiðil eins og evruna væri alls ónauðsynlegt að ganga í Evrópusambandið. „Af hverju ættuð þið að ganga í eitthvað jafn óstarfhæft og Evrópusambandið?” Sagði hann að Ísland myndi ekki hafa nein áhrif í sambandinu eða á peningastjórn þess og ef tilgangurinn með inngöngu væri sá einn að taka upp evruna væri það hægt einhliða.

Wolf sagði að staða Íslands til lengri tíma litið væri öfundsverð. Hér væru margar mikilvægar og verðmætar náttúruauðlindir og þjóðin fámenn. Það væri því fátt því til fyrirstöðu að Íslendingar gætu orðið afar auðug þjóð. Reyndar sagði hann að Íslendingar væru ennþá ríkir í samanburði við margar aðrar þjóðir, við værum bara ekki eins rík og við hefðum verið fyrir hrun. „Ég vorkenni ykkur ekki eins mikið og ég gerði áður en ég kom hingað,“ sagði hann.