Evrópusambandið hefur ákveðið að fresta sektargreiðslum á hendur ríkisstjórnum Spánar og Portúgals fyrir að fara fram úr hámarksfjárlagahalla.

Langtframúr hámarksfjárlagahalla

Samkvæmt reglum sambandsins eiga aðildarríki ekki að hafa meiri fjárlagahalla en sem nemur 3% af heildarlandsframleiðslu þess. Á síðasta ári nam fjárlagahalli Spánar 5,1% af landsframleiðslu og Portúgals 4,4%.

Vegna „sérstakra aðstæðna“ hefur leiðtogaráð Evrópusambandsins samþykkt að hvort landið fyrir sig fái meiri tíma til að gangast við reglunum og ná fjárlagahallanum niður.

Mislangur frestur

Fá löndin aukinn frest, í tilviki Spánar til ársins 2018 til að ná honum niður fyrir 3% og í tilviki Portúgals, til loka núverandi árs til að ná honum niður fyrir 2,5%.

Sagði ráðið að ríkisstjórnir landanna þyrftu að skila inn skýrslu fyrir 15. október næstkomandi sem sýndi hvernig þeir ætluðu sér að ná markmiðum sínum.

Vilja ekki auka andstöðu við ESB

Á síðasta ári fékk Frakkland svipaðan frest þegar þeir fóru einnig fram úr. Virðist vera sem leiðtogar sambandsins séu að heykjast á því að setja á sektir af ótta við að auka við andstöðu við sambandið, en á sama tíma óttast þeir að missa trúverðugleikann ef þeir samþykkja reglur sem svo er ekki framfylgt segir í frétt BBC .

Þó reglurnar nái til allra aðildarríkja sambandsins, eru það einungis þau 19 lönd sem nota evruna sem hægt er að sekta fyrir að fara fram úr 3% leyfilegs fjárlagahalla.