Evrópusambandið hefur gefið grænt ljós á kaup kínverska bílaframleiðandans Zhejiang Geely Holding Co. á Volvo af bandaríska bílaframleiðandanum Ford. Ráðgert er að gengið verði endanlega frá kaupsamningnum í næsta mánuði samkvæmt frétt AP. Með þessum samningi mun Geely, sem merkir heppni á kínversku, fá meiriháttar fótfestu á Evrópumarkaði og mikla sérstöðu á kínverska bílamarkaðnum sem er nú sá stærsti í heimi.

Geely er kínverskt einkafyrirtæki sem framleiðir bíla, mótorhjól og skutlur (scooters eða vespur) með lítilli aðstoð kínverskra yfirvalda. Geely fór þó út í kaupin á Volvo í samstarfi við fjárfestingafélagið Daqing sem er í eigu kínverska ríkisins. Hefur það félag gefið það út að það hyggist leggja til aukið fjármagn upp á 900 milljónir dollara til að auka framleiðsluna á Volvo og gera hana arðvænlega að nýju.