Samkeppnisráð Evrópusambandsins tilkynnti í morgun um að það hefði hafið rannsóknir á hvort Apple hafi brotið samkeppnislög í gegnum þjónustanna Apple Pay og App Store. Reynist tæknirisinn sekur gæti hann fengið sekt sem jafngildir 10% af árlegum tekjum hans.

Framkvæmdaráð ESB segist ætla að rannsaka hvort Apple leyfir einungis Apple Pay þjónustunni að nota snertilausar greiðslulausnir sem eru innbyggðar í Apple tæki og komi þannig í veg fyrir að hönnuðir smáforrita geti notað sambærilegar greiðslulausnir samkeppnisaðila Apple.

„Það veldur vonbrigðum að Framkvæmdaráð ESB fylgi tilhæfulausum kvörtunum frá örfáum fyrirtækjum sem vilja einfaldlega vera laumufarþegar og komast hjá því að spila eftir sömu reglum og allir aðrir,“ er haft eftir heimildarmanni Apple í frétt WSJ .

Margrethe Vestager, sem stýrir samkeppniseftirliti ESB, segir að mikil áhersla væri á að klára rannsóknina þar sem vöxtur verslunar í gegnum farsíma hefur aukist vegna faraldursins og neytendur nota netverslun og snertilausar lausnir í auknum mæli.

Rannsóknirnar koma í kjölfar kvartana, meðal annars frá Spotify, um stífar reglur fyrir framleiðendur smáforrita innan App Store. Tónlistarstreymisveitan gagnrýndi Apple, meðal annar vegna þóknana af sölum innan smáforrita App Store.

„Þetta er góður dagur fyrir neytendur,“ segir í tilkynningu Spotify. „Samkeppnishamlandi hegðun Apple hefur viljandi sett samkeppnisaðila í verri stöðu, búið til ósanngjarnar leikreglur og svipt neytendur of lengi um val þjónusta.“