Fjármálaráðherrar G20-ríkjanna gefa leiðtogum ESB viku til þess að klára áætlun um lausn skuldakreppu MIðjarðarhafsríkjanna. Þetta var niðurstaða fundar fjármálaráðherrana og seðlabankastjóra í París sem lauk um helgina. Næsti leiðtogafundur ESB fer fram í Brussel 23. október og telja fjármálaráðherrar G20 að áætlunin verði að liggja fyrir þá ella sé mikil hætta á að efnahagslægðin dýpki enn frekar.

„Hættan á niðursveiflu eykst verulega mistakist Evrópumönnum að ná þeim markmiðum sem þeir hafa sett sér,“ segir Jim Flaherty, fjármálaráðherra Kanada, í samtali við Bloomberg.

Um þessar mundir eru tvö ár síðan Georgios Papandreou, forsætisráðherra Grikklands, upplýsti um stöðu gríska hagkerfisins og síðan hafa vandamálin hlaðist upp, m.a. í Portúgal, Ítalíu og á Spáni.