IPA-styrkir frá Evrópusambandinu nýttust við að vinna manntal Hagstofunnar og önnur verkefni. Án þeirra hefði verið ómögulegt að ráðast í þau. Þetta segir Ólafur Hjálmarsson hagstofustjóri í formála að Ársskýslu Hagstofunnar sem kom út í dag.

Ólafur rifjar upp að skrifað hafi verið undir samning til tveggja ára um IPA-styrkina í apríl. Þeir námu einni milljón evra, jafnvirði rúmra 160 milljóna króna, og skiptist hann á milli manntals og landbúnaðartölfræði.

„Verkefnin voru þegar sett af stað og voru komin á fullan skrið um haustið. Hluti af kostnaðinum við manntalið er borinn uppi af óráðstöfuðu eigin fé Hagstofunnar, en ómögulegt hefði verið að ráðast í verkefnin án styrksins frá ESB,“ skrifar Ólafur.

Þessu til viðbótar kemur fram í skýrslu stjórnar Hagstofunnar, að starfsemi stofnunarinnar hafi mótast mjög af umsókn um aðild að Evrópusambandinu og styrkirnir frá ESB gert sérfræðingum Hagstofunnar aftur kleift að sækja fundi um hagskýrslugerð.

IPA-styrkir eru veittir hverju umsóknarríki til að standa straum af kostnaði við umsókn þess við aðildarviðræður og undirbúa stjórnsýsluna fyrir umsóknarferlið. Heildarfjárhæðin sem ætluð er Íslandi nema 30 milljónum evra, um fimm milljörðum kríóna, sem dreifast yfir árin 2011 til 2013.

Jón Bjarnason var sem landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra mjög andsnúinn IPA-styrkjunum og var greint frá því í fjölmiðlum í fyrra að hann hafi látið þau boð út ganga að stofnanir sem heyrðu undir landbúnaðarráðuneytið ættu ekki að sækja um þá. Í lok nóvember í fyrra sagði Fréttablaðð svo frá því að Matís hefði hætt við að sækja um 300 milljóna króna styrk frá ESB. Hann átti að nota til að taka upp mælingar á eiturefnum í matvælum.

Ársskýrsla Hagstofunnar