Fjármálaráðherrar Evrópusambandsins (ESB) hafa náð samkomulagi um að styðja sósíalistann og fyrrum fjármálaráðherra Frakklands í ríkisstjórn Lionel Jospin á tíunda áratugnum, Dominique Strauss-Kahn, í embætti framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Hugmyndin að því að tilnefna Strauss-Kahn kom frá Nicolas Sarkozy Frakklandsforseta og telja stjórnmálaskýrendur að stuðningur annarra leiðtoga í ESB við útnefninguna sé mikill diplómatískur sigur fyrir Sarkozy. Ef skipun Strauss-Kahn verður að veruleika munu Frakkar eiga yfirmenn hjá þremur stórum alþjóðastofnunum: Seðlabanka Evrópu, Alþjóðaviðskiptastofnuninni og núna hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.