Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins er að íhuga leiðir til að setja reglur fyrir leigubíla appið Uber sem munu gilda fyrir öll Evrópusambandsríkin frekar en fyrir hvert og eitt land eins og áður hefur verið gert. Þessu greinir the Financial Times frá.

Verið er að skipuleggja rannsókn á evrópska leigubílamarkaðnum til þess að framkvæmdastjórnin geti ákveðið næstu skref. Uber hefur kvartað til þeirra vegna Frakklands og Þýskalands. En forsvarsmenn framkvæmdastjórnarinnar segjast í samtali við FT sytðja nýjar samgönguleiðir og þjónustu.

Uber hefur átt í erfiðleikum síðan fyrirtækið hóf þjónustu sína í Evrópu árið 2012, ökumenn hafa verið sektaðir og bílarnir þeirra hafa verið teknir burt. Uber er löglegt í sumum löndum, til að mynda í Bretlandi en er bannað í öðrum, meðal annars á Spáni.

Lögleiðing og reglugerð fyrir Uber á öllu ESB svæðinu myndi einfalda ýmislegt þar sem vandamál hafa komið upp vegna þess að mismunandi reglur gilda um þjónustuna í mismunandi löndum. Einnig hafa komið upp slagsmál milli Uber ökumanna og leigubílsstjóra í ýmsum Evrópuborgum. Fyrirtækið hefur barist fyrir réttindum sínum undanfarna mánuði með því að kvarta til framkvæmdastjórnarinnar vegna frönsku, þýsku og spænsku ríkisstjórnanna sem hafa reynt að takmarka eða banna þjónustuna.