Evrópusambandið hefur ákært Apple fyrir brot á samkeppnislögum. Kæran snýr að þóknunargjöldum á forritamarkaðnum App Store en málið hófst með formlegri kvörtun frá tónlistarstreymisveitunni Spotify fyrir tveimur árum.

Margrethe Vestager, sem stýrir samkeppniseftirliti ESB, sagði að framferði Apple leiði til hærri kostnaðar hjá samkeppnisaðilum og um leið „svipti neytendur um ódýrari valkosti á tónlistarstreymisveitum og skekki samkeppni“, að því er kemur fram í frétt Financial Times .

Framleiðendur smáforrita sem vilja nota App Store, eini vettvangur fyrir smáforrit í iPhone snjallsímum Apple, þurfa að greiða 30% þóknun á allri sölu ásamt því að fylgja ströngum reglum sem Apple segir nauðsynlegar til að tryggja öryggi og gæði á vettvanginum.

Sjá einnig: Sala á iPhone eykst um 66%

Málið er sagt eitt stærsta samkeppnismálið sem er opið hjá stjórnvöldum í Brussel en þetta er í fyrsta skipti sem eftirlitsaðilar ESB leggja fram formlega kæru gegn netrisanum. Apple gæti átt yfir höfði sér sekt sem nemur 10% af heildartekjum félagsins á heimsvísu ef það er uppvíst að hafa brotið lög ESB. Talið er þó að málið gæti varið í nokkur ár innan dómstóla ESB í Lúxemborg.

Sjá einnig: Eins og plasthnífur í skotbardaga

Ákvörðun ESB kemur einungis nokkrum dögum fyrir réttarhöld Apple og Epic, sem framleiðir tölvuleikinn Fortnite, í Bandaríkjunum vegna þóknana á App Store. Snjallsímaútgáfan af Fortnite var tímabundið fjarlægð úr App Store á síðasta ári eftir að Epic reyndi að beina notendum sínum að greiðslugátt utan forritamarkaðsins til að komast hjá þóknunargjaldinu.