Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins ætlar að kanna hvort bandaríski tölvurisinn Microsoft beiti brögðum til að koma í veg fyrir að tölvueigendur geti sett upp annan vafra en Internet Explorer í tölvum sem keyra á nýjasta stýrikerfinu, Windows 8. Stýrikerfið er væntanlegt á markað í október.

Rannsóknin er liður í áralöngu stríði Microsoft við samkeppnisyfirvöld á meginlandi Evrópu. Skemmst er að minnast að árið 2004 sakaði framkvæmdastjórnin Microsoft um að misnota markaðsráðandi stöðu sína, m.a. með afspilunarforrit og vafra. Stjórnin sektaði Microsoft um heilar 899 milljónir evra. Þetta var einhver langhæsta sekt sem framkvæmdastjórnin hefur skrifað á eitt fyrirtæki. Microsoft áfrýjaði sektargreiðslunni í maí síðastliðnum en tilkynnti jafnframt að í næstu útgáfur stýrikerfisins yrðu móttækilegri fyrir forritum og vöfrum frá samkeppnisaðilunum.

Tölvur og tæki hafa tekið miklum framförum á þeim átta árum sem liðin eru síðan framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hóf að rannsaka meint brot Microsoft. Nú nær rannsóknin ekki aðeins til tölva heldur jafnframt til spjaldtölva sem keyra á stýrikerfi fyrirtækisins.