Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (ESB) tilkynnti í gær að það hafi sent út kæru gegn Apple tölvufyrirtækinu og nokkrum stórum hljómplötuútgefendum vegna þess að ákveðnir þættir iTunes netverslunarinnar brjóti í bága við samkeppnislög ESB. Málið snýst meðal annars um að íbúar aðildarríkja sambandsins geta einungis keypt tónlist gegnum iTunes í heimalöndum sínum og Apple tryggir slíkar takmarkanir með því að krefjast þess að kaupendur noti einungis greiðslukort gefin út í þeim löndum.

Fram kemur í tilkynningu framkvæmdastjórnarinnar að slíkt takmarki hvar á sameiginlega markaðnum neytendur kaupi tónlist og hafi takmarkandi áhrif á úrval og verð í hverju aðildarríki.