Evrópusambandið hefur ákveðið að veita Úkraínu 1,8 milljarða evra lán og er þetta stærsti slíki samningurinn sem sambandið hefur gert við ríki utan ESB. Samkomulagið var undirritað á fundi ESB ríkjanna í Riga í Lettlandi. Fjármagnið á að nýta til að blása lífi í úkraínska hagkerfið, sem hefur liðið fyrir átök við aðskilnaðarsinna í austurhluta landsins.

Gegn því að fá lánið munu úkraínsk stjórnvöld þurfa að grípa til umbótaaðgerða, m.a. til að berjast gegn spillingu í landinu.

Til viðbótar við lánið mun Úkraína fá 200 milljóna evra styrk, en sambærilegur styrkur var við sama tækifæri veittur til Armeníu, Azerbaijan, Hvítarússlands, Georgíu og Moldavíu.