Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins er sögð reiðubúin til að reiða fram 11 milljarða evra, jafnvirði rúmra 1.200 milljarða íslenskra króna, til handa stjórnvöldum í Úkraínu. Um er að ræða fjárhagsaðstoð sem yrði veitt á næstu tveimur árum.

José Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar ESB, sagði á blaðamannafundi í dag lánveitinguna lið í stærri alþjóðlegum lánapakka. Stjórnvöld í Bandaríkjunum hafa lýst því yfir að þau séu reiðubúin til að leggja lóð sitt á vogarskálarnar og lána allt að 1 milljarð dala auk þess sem fjármálasérfræðingur verði sendur til Úkraínu til að vinna með seðlabanka landsins að endurreisn efnahagslífsins eftir óstjórn fyrri stjórnar í peningamálum.

Reuters-fréttastofan segir að stjórnvöld í Úkraínu hafi lýst því yfir að þau vanti jafnvirði 35 milljarða dala samanlagt á næstu tveimur árum til að geta staðið við skuldbindingar landsins.