Samkvæmt nýlegri könnun Já, Ísland og Gallup eru tæplega 60% Íslendinga andvíg aðild Íslands að ESB og 40% hlynnt inngöngu. Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, segir að innganga Íslands í ESB myndi flækja utanríkisviðskipti Ísland, enda er utanríkisviðskiptastefna Íslands mun einfaldari og frjálslyndari en hjá ESB.

Þetta kom fram í erindi ráðherrans á fundi Félags atvinnurekenda á þriðjudaginn um þýðingu Brexit fyrir fyrirtæki á Íslandi.

„90% af tollnúmerum á Íslandi eru tollfrjáls, en aðeins 26% í Evrópusambandinu. Innganga Íslands í ESB myndi þýða flóknari utanríkisviðskipti fyrir Ísland, minni fríverslun, aukið skrifræði og aukinn kostnað. Þar að auki myndi Ísland missa fríverslunarsamning sinn við Kína,“ sagði Guðlaugur Þór.

„Evrópusambandið hefur í auknum mæli verið að þróast yfir í pólitískt bandalag í stað fríverslunarbandalags. Sambandið hefur aldrei verið boðberi fríverslunar og verður það aldrei. Þú getur einfaldlega ekki verið fríverslunarsinni og viljað ganga í ESB.“

Evrópusambandið í klípu

Guðlaugur Þór sagði gríðarleg tækifæri fólgin í aukinni fríverslun við Bretland fyrir Ísland eftir útgöngu Bretlands úr ESB. Eftirsóknarvert væri að stefna að því sem næst fullri fríverslun við Bretland, sem stefna að því að verða leiðandi í fríverslun á heimsvísu eftir Brexit. Hann segir þó raunverulega áhættu vera til staðar, þar sem hætta er á að viðskiptahindranir rísi upp í álfunni. Mikilvægt sé að pólitískur vilji sé til staðar á næstu árum til að tryggja hagsmuni Íslands vegna Brexit, sem séu gríðarlega miklir.

„Evrópusambandið er í klípu. Ráðamenn í Brussel vilja ekki að Bretar nái of góðu samkomulagi í Brexit-viðræðunum, vegna þess að ef Bretar fá samkeppnisforskot gætu önnur ESB ríki slitið sig frá sambandinu. Á sama tíma flytur ESB meira út til Bretlands heldur en Bretland flytur út til ESB, og myndu viðskiptahömlur bitna á hagsæld í álfunni. Það er mjög erfitt að segja við kjósendur: Þið þurfið að missa störfin vegna þess að við ætlum að gera fordæmi úr Bretum og refsa þeim fyrir útgönguna til þess að önnur ríki íhugi ekki að fara sömu leið. Áhættan er því raunveruleg og það yrði hræðilegt að sjá viðskiptahindranir rísa upp. ESB verður að líta inn á við og breyta til hjá sér,“ sagði Guðlaugur Þór.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .