Aðildarumsókn Króatíu í Evrópusambandið (ESB) fékk byr undir báða vængi í fyrradag þegar framkvæmdastjórn ESB sagði að það ætti að vera mögulegt að klára samningaviðræðurnar fyrir árslok 2009. „Það ætti að vera hugsanlegt að ljúka tæknilegum viðræðum á næsta ári, helst áður en umboð núverandi framkvæmdastjórnar rennur út í nóvember árið 2009“, sagði Jose Manuel Barroso, forseti framvæmdastjórnar ESB, eftir fund sinn með Ivo Sanader, forsætisráðherra Króatíu.

Í frétt Financial Times kemur fram að þetta sé í fyrsta skipti sem Króatía hefur fengið skýr skilaboð frá Brussel um hvenær hægt sé að ljúka aðildarviðræðunum, en þær hófust upphaflega í október árið 2005. Viðræðunum hefur hins vegar miðað mjög hægt á undanförnum tólf mánuðum. Yfirlýsing Barroso kemur í kjölfar þess að króatíska þingið fjarlægði stærsta ásteytingarsteininn í samskiptum Króatíu og Evrópusambandsins, með því að samþykkja breytt fyrirkomulag við fiskveiðar á tilteknu hafsvæði í Adríahafi.

Þingið samþykkti snemma í gærmorgun –með naumum meirihluta greiddra atkvæða – tillögu stjórnarflokksins um að afnema ákvæði sem bannaði sjómönnum frá ríkjum Evrópusambandsins að stunda veiðar á hafsvæðinu. Ákvæðið hafði einkum haft áhrif á sjómenn frá Ítalíu og Slóveníu, og hafði bæði framkvæmdastjórnin og ríkisstjórnir ESB ráðlagt Króatíu að afnema bannið ellegar gætu aðildarviðræðurnar frestast enn lengur. Þrátt fyrir að það hafi verið ríkisstjórn Sander sem upphaflega setti á bannið, þá sagði forsætisráðherrann fyrir atkvæðagreiðslu þingsins að hann teldi inngöngu Króatíu varða mikilvægari hagsmuni heldur en fiskveiðisvæðin. Þjóðernissinnaðir stjórnmálamenn á þinginu mótmæltu því harðlega. Evrópusambandinu er mikið í mun að ljúka aðildarviðræðunum sem allra fyrst til þess að gera Króatíu að fyrirmynd í tengslum við hugsanlega inngöngu annarra ríkja á Balkanskaga, þá sérstaklega Serbíu.