Evrópusambandið rannsakar hvort tilefni sé til að sekta Amazon. Rannsóknin lítur að því hvort félagið sé að misnota markaðsráðandi stöðu sína eða ekki. Frá þessu er greint á vef BBC.

Evrópusambandið hyggst meðal annars skoða hvaða upplýsingar Amazon býr yfir og hvernig félagið er að nýta sér þær upplýsingar. Ekki er ljóst hvort Amazon sé að notfæra sér þann gagnagrunn sem félagið býr yfir á ólögmætan máta. ESB mun meðal annars rannsaka hvort félagið sé að veita sínum vörum ósanngjarnt markaðsforskot á vefsíðu félagsins. Dæmi um slíkt væri að auglýsa vörur Amazon í svokölluðum „mælt með“ dálkum á vefsíðu félagsins, fremur en vörur frá öðrum framleiðendum.

Amazon segir önnur fyrirtæki selja sínar eigin vörur í búðum sínum, meðal annars Tesco og Sainsbury‘s, og að slíkt kunni að efla samkeppni, fremur en að hindra hana. Ef til þess kæmi að Amazon yrði sektað gæti upphæðin numið allt 19 milljörðum dollara. Ólíklegt er að dómur verði kveðinn fyrr en á næsta ári.