Evrópusambandið hefur falið samkeppnisyfirvöldum að rannsaka viðskipti á markaði skuldatrygginga. Rannsóknin er skref í átt að frekari regluverki um viðskipti með þessar framandi afleiður, segir í frétt Financial Times. Bandarísk yfirvöld hófu svipaða rannsókn í fyrra.

Viðskipti með skuldatryggingar, sem á ensku heita Credit Default Swaps eða CDS, voru mikið stunduð fyrir fjármálakrísu og spiluðu lykilhlutverk í falli stærstu banka Wall Street.

Meðal þess sem er rannsakað er hvort breska fyrirtækið Markit hafi í sameiningu við 16 fjármálafyrirtækið ákveðið að einoka markaði skuldatrygginga. Í frétt Financial Times kemur fram að margir af stærstu bönkum heims eru til rannsóknar. Þeir sem eru taldir upp eru Bank of America Corporation, Barclays Bank, Citigroup, Crédit Suisse Group, Deutsche Bank, Goldman Sachs Group, JPMorgan Chase, Morgan Stanley og UBS.