Evrópusambandið hefur samþykkt að setja ferðabann og frysta eigur 21 embættismanns frá Rússlandi og Úkraínu. Þetta er gert eftir þjóðaratkvæðagreiðslu á Krímskaga í gær. Stjórnvöld segja að 97% almennings á Krímskaganum hafi samþykkt aðskilnað frá Úkraínu og sameiningu við Rússland.

Einstaklingarnir sem sæta þessum refisaðgerðum eru álitnir hafa leikið lykilhlutverk í því að setja á atkvæðagreiðsluna, en stjórnvöld í Úkraínu, Bandaríkjunum og Evrópusambandinu telja að atkvæðagreiðslan sé ólögleg. Umræddir einstaklingar hafa ekki verið nafngreindir.

Ákvörðun Evrópusambandsins um að beita refsiaðgerðum var tekin eftir fund utanríkisráðherra Evrópusambandsríkjanna í Brussel.

BBC greindi frá.