Samkeppnisyfirvöld í Evrópusambandinu hafa sektað bandaríska loftneta- og örgjörvaframleiðandann Qualcomm um andvirði 272 milljónir dala, eða sem nemur 34,3 milljörðum íslenskra króna.

Er um að ræða annað skipti á 18 mánaða tímabili sem ESB leggur sektir á félagið, en stofnanir sambandsins hafa verið að einblína á bandarísk fyrirtæki á síðustu misserum fyrir að brjóta samkeppnislög.

Segir Margrethe Vestager, sem stýrir samkeppniseftirliti ESB að Qualcomm hefði misnotað markaðsráðandi stöðu sína til að ýta keppinaut út af markaðnum, og komið í veg fyrir samkeppni á markaði fyrir sérstaka örgjörva, sem tengja snjallsíma og spjaldtölvur við símkerfi.

Qualcomm er stærsti framleiðandi heims á örgjörvunum, en félagið hefur verið í miklum lagadeilum, þar á meðal fyrir bandarískum dómstólum, þar á meðal úrskurður frá því í maí að félagið hafi hindrað samkeppni. Bandaríska dómsmálaráðuneytið hefur þó bent á að harðar refsingar gagnvart félaginu geti skaðað það í samkeppninni við kínverska keppinauta á sviði 5G farsímakerfa.

Eins og Viðskiptablaði fjallaði um í byrjun maí náði félagið samkomulagi við Apple um að fella niður dómsmál á milli félaganna tveggja út um allan heim, í stað um 560 milljarða króna greiðslu Apple til Qualcomm, eftir harðvítugar deilur félaganna í á þriðja ár.

Rannsókn ESB á málinu hófst árið 2015 í kjölfar kvörtunar breska örgjörvaframleiðandans Icera um að á milli 2009 og 2011 hafi félagið stundað ósanngjarna viðskiptahætti með því að selja ákveðna örgjörva undir markaðsverði til að losna við Icerva út af honum.

Qualcomm hafnar ásökunum og segir að úrskurðinum verði áfrýjað til dómstóla ESB. Félagið muni ekki greiða sektina heldur leggja fram tryggingu fyrir greiðslu hennar meðan dæmt er í málinu að því er WSJ greinir frá.