Orð Josefs Ackerman, stjórnanda hjá hinum þýska Deutsche Bank, um konur í stjórnum fyrirtækja, hafa fallið í grýttan jarðveg. Hann sagði konur vissulega geta lífgað upp á stjórnarfundi og gert þá „fallegri og litrækari“.

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, brást við þessum orðum með því að segja að aðilar í viðskiptalífinu þyrftu að vera hugmyndaríkari, þegar kæmi að vali á stjórnendum og stjórnarmönnum. „Annað hvort verðið þið hugmyndiríkir, eða við,“ sagði Merkel, að því er CNN greinir frá í dag.

Ackerman hefur reyndar brugðist við gagnrýni á sig með þeim orðum að hann hafi ekki ætlað sér að móðga neinn. Þetta hafi verið sagt í gríni.

Yfirmaður jafnréttismála hjá ESB, Viviane Reding, brást ókvæða við þessum orðum Ackerman. Hún sagði einfaldlega að fyrirtæki yrðu að fjölga konum í stjórnum. Ef ekki, þá myndi ESB gera það.

Konur eiga enn langt í land þegar kemur að því að standa jafnfætis körlum í valdastöðum í atvinnulífinu í Evrópu. Aðeins 3% forstjóra í 500 stærstu fyrirtækjum Evrópu eru konur og 12% stjórnarmanna. Það hlutfall hefur reyndar hækkað á undanförnum árum, en það var 8% árið 2004.