Ríkisstjórnin ákvað á fundi sínum í morgun að breyta meðferð aðildarviðræðna við Evrópusambandið fram yfir næstu kosningar til Alþingis. Ákvörðunin var tekin eftir fund ráðherranefndar um Evrópumál. Í minniblaði frá fundinum segir m.a. að nokkur af stærstu málunum í viðræðum um aðild Íslands að Evrópusambandinu, svo sem um sjávarútvegs- og landbúnaðarmál, hafi tafist. Ljóst sé að viðræðurnar leiði ekki til samnings á yfirstandandi kjörtímabili og muni næstu mánuðir markast af undirbúningi fyrir næstu þingkosningar.

Í minnisblaðinu segir m.a. að í því ljósi þjóni það best hagsmunum Íslands að búið sé um málið með ábyrgum hætti fram að kosningum. Því sé eftirfarandi lagt til:

  • Ekki verður um frekari vinnu að ræða við mótun samningsafstöðu Íslands í þeim fjórum köflum sem enn eru ófrágengnir. Þetta eru sjávarútvegskaflinn (13), kaflar 3 og 4 um þjónustuviðskipti og staðfesturétt sem hafa tengingu yfir í sjávarútvegskaflana og landbúnaðarkaflinn (11).
  • Ekki verður lögð áhersla á sérstaka ríkjaráðstefnu á útmánuðum og þeir tveir kaflar sem samningsafstaða hefur verið lögð fram í en ekki opnaðir bíða þá í óbreyttri stöðu.
  • Varðandi þá 16 kafla sem nú standa opnir munu samninganefnd Íslands og sérfræðingar halda áfram uppi samskiptum við ESB um þá, án þess þó að kallað verði eftir frekari ákvörðunum framkvæmdar- eða löggjafarvalds.
  • Utanríkisráðherra mun upplýsa framkvæmdastjórn ESB og formennskuríkið Írland með viðeigandi hætti um þennan umbúnað viðræðnanna.

Samkomulag um breytta meðferð aðildarviðræðna við ESB fram yfir komandi Alþingiskosningar