Ráðamenn í evruríkjunum vilja fresta því um tvo mánuði að veita stjórnvöldum á Kýpur neyðarlán svo landið geti staðið við skuldbindingar sínar. Kröfuhafaráð hefur verið sett saman til að hafa auga með fjárreiðum á Kýpur. Þetta er álíka hópur og hefur leitt Grikki í gegnum fjárhagslega uppstokkun síðustu mánuði en hann samanstendur af alþjóðlegum lánveitendum á borð við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og Evrópusambandið. Skuldir Kýpverja nema 90% af landsframleiðslu.

Fréttavefur breska dagblaðsins Financial Times segir kröfuhafaráðið vilja sjá meiri uppstokkun og niðurfærslu skulda Kýpverja en áður hefur verið talið. Kýpverjar voru góðir við frændur sína á Grikklandi þegar dyr alþjóðlegra lánamarkaða stóðu svo til öllum opnar fyrir hrun og lánuðu þangað háar fjárhæðir. Þegar Grikkir fóru svo á hliðina fylgdu Kýpverjar með enda þurfu bankar þar í landi að afskrifa háar fjárhæðir í uppstokkun á skuldbindingum Grikkja. Bankar á Kýpur hafa af þessum sökum staðið á brauðfótum og hafa stjórnvöld kallað eftir alþjóðlegri fjárhagsaðstoð.

Financial Times segir þýska fulltrúa í kröfuhafaráðinu leggja á það áherslu að Kýpverjar taki sig á. Þeir segja banka á Kýpur stunda peningaþvætti fyrir Rússa með og glöðu geði og verði að skrúfa fyrir allt slíkt. Þá mun Angela Merkel, kanslari Þýskalands, ekki líka við Demetri Christofias, forseta Kýpur, og telji hún hann fremur ótrúverðugan viðsemjanda sem loki augunum fyrir fjárhagsvanda landsins.