*

laugardagur, 29. janúar 2022
Innlent 15. apríl 2021 09:18

ESB sjóður fjárfestir í EpiEndo

EpiEndo Pharmaceuticals ehf. tryggði sér nýverið 2,7 milljón evru fjármögnun í formi breytanlegs láns frá EIC Fund.

Ritstjórn
Finnur Friðrik Einarsson, rekstrar- og fjármálastjóri Epiendo.
Haraldur Guðjónsson

EpiEndo Pharmaceuticals ehf. tryggði sér nýverið 2,7 milljón evru fjármögnun í formi breytanlegs láns frá The European Innovation Council Fund (EIC Fund). Greint er frá þessu í fréttatilkynningu þar sem segir að fjármagnið muni styðja við klínískar rannsóknir og áframhaldandi vöxt félagsins næstu misserin.

„The EIC Fund er nýr evrópskur fjárfestingasjóður í eigu Evrópusambandsins sem var stofnaður í júní 2020 með það að markmiði að fjárfesta í og styðja við öflug sprotafyrirtæki í Evrópu, gera þeim kleift að vaxa hraðar og auka samkeppnishæfni Evrópu gagnvart Asíu og Bandaríkjunum,“ segir um sjóðinn í tilkynningunni.

EpiEndo er meðal fyrstu fyrirtækjanna sem sjóðurinn fjárfestir í og þessi fjármögnun í framhaldi af 2,5 milljón evra styrk frá The European Innovation Council, sem félagið fékk í upphafi árs 2020, hafa gert félaginu kleift að koma fyrsta lyfinu sínu, EP395, í klínískar rannsóknir.

Um EpiEndo Pharmaceuticals

Epiendo Pharmaceuticals er lýst með eftirfarandi hætti í fréttatilkynningu:

„EpiEndo Pharmaceuticals er fyrirtæki í líftækni- og lyfjaþróun sem byggir á nýrri nálgun í lyfjaþróun gegn bólgusjúkdómum í öndunarvegum og öðrum yfirborðsþekjum líkamans. Þróun EpiEndo beinist að því að styrkja byggingu og virkni þekjufruma líkamans sem vörn gegn síendurteknum og langvarandi bólgum í öndunarfærum, meltingarvegi og húð. Fyrsta lyf EpiEndo (EP395) býr yfir lofandi virkni á bæði þekjufrumur og bólgufrumur með þekjustyrkjandi og bólgueyðandi hætti. 

Rannsóknir EpiEndo, og annarra, síðastliðin 15 ár benda til þess að þekjustyrkjandi og bólgueyðandi eiginleikar lyfsins, muni valda byltingu í meðferð langvinnrar lungnateppu hvað varðar meðferðarárangur, tíðni sjúkrahúsinnlagna og lægri kostnað við meðferð sjúklinga.  Fari fram sem horfir gæti EP395 verið skráð á frumlyfjamarkað árið 2029 sem fyrsta langtímameðferðin við öndunarvegasjúkdómum sem tekin væri inn í töfluformi.“

Stikkorð: ESB fjármögnun EpiEndo