Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur sektað bandaríska tölvurisann Microsoft um 561 milljónir evra, jafnvirði 91 milljarða íslenskra króna. Fyrirtækið er talið hafa brotið samkeppnislög með því að opna ekki netvafrann Internet Explorer og dreifa honum með stýrikerfinu. Breska viðskiptadagblaðið Financial Times segir forsvarsmenn Microsoft ætla ekki að áfrýja málinu og beri fyrirtækið ábyrgð á þeirri „tæknilegu villu“ sem skýri brotið.

Blaðið rifjar upp að þetta er ekki í fyrsta skiptið sem framkvæmdastjórnin og samkeppnisyfirvöld Evrópusambandsins hafa sektað Microsoft. Á hinn bóginn er þetta í fyrsta skiptið sem sektarákvörðuninni er ekki áfrýjað. Blaðið segir að hugsanleg ástæða þessa sé sú hversu oft Microsoft hefur verið sektað vegna sömu eða svipaðra brota. Þá er bent á í umfjöllun blaðsins að sektin er vegna brota Microsoft árið 2009. Þá hafi netvafri fyrirtækisins drottnað yfir öðrum. Nú gegni hins vegar öðru máli en Chrome-vafri Google er nú vinsælasti netvafrinn. Þá eru aðrir vafrar jafnframt vinsælli í spjaldtölvum og farsímum.