Utanríkisráðuneytið greiddi 48,3 milljónir króna í ráðgjafaþjónustu á átta og hálfs mánaðar tímabili, eða frá 1. júlí í fyrra til 15. mars síðastliðins.

Þetta kemur fram í svari Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra við fyrirspurn Svandísar Svavarsdóttur, þingflokksformanns Vinstri grænna.

„Þar af nam kostnaður vegna vinnu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands að skýrslu um úttekt á stöðu aðildarviðræðna Íslands við Evrópusambandið og þróun sambandsins um 27,4 milljónum króna og kostnaður vegna ráðgjafarþjónustu almannatengslafyrirtækisins Burson-Marsteller í tengslum við makríldeiluna nam um 10,6 milljónum króna,“ segir í svari Gunnars Braga.