Evrópusambandið hyggst stefna lyfjaframleiðandanum AstraZeneca þar sem afhendingaáætlun félagsins á bóluefni hefur ekki staðist sem skyldi. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá framkvæmdastjórn ESB. Financial Times hefur eftir talsmanni félagsins að það muni taka til varna.

Í yfirlýsingu framkvæmdastjórnarinnar kemur fram að ekki hafi verið staðið við hluta samningsskilmála um afhendingu bóluefnisins. Þá hafi ekki komið fram raunhæf áætlun um það hvernig verði unnt að efna samninginn.

„Það skiptir okkur máli að afhending nægilega margra skammta til íbúa sambandsríkja, sem þeir eiga rétt á og hefur verið lofað samkvæmt samningi, verði tryggð,“ segir í yfirlýsingunni. Málið verður höfðað af sambandinu fyrir hönd þeirra 27 ríkja sem það mynda.

Sem kunnugt er hefur bólusetning, við veirunni sem veldur Covid-19, í ríkjum sambandsins verið brokkgeng samanborið við framgang til að mynda í Bandaríkjunum, Bretlandi auk fleiri ríkja. Samkvæmt samningi hafði AstraZeneca skuldbundið sig til að afhenda 300 milljónir skammta fyrir júnílok en flest bendir til að framleiðandinn nái aðeins að afhenda um þriðjung þess.

„Framleiðsla bóluefna er flókin, líkt og sjá má af framboðsskorti ýmissa innihaldsefna í Evrópu og heiminum. Unnið er að því að bæta úr þeim tæknilegu vandamálum sem hafa háð okkur og sem stendur er allt á réttri leið. Ferlið er hins vegar flókið og langt og það mun þýða að það mun taka tíma fyrir úrbæturnar að skila sér af fullum krafti,“ segir í yfirlýsingu AstraZeneca.

Lagaspekingar, sem Financial Times ræddi við, segja að sambandið sé að taka áhættu með málshöfðuninni og að staðan til varnar sé fjarri því að vera ómöguleg. Þá sé möguleiki á því að málareksturinn verði síst til þess að flýta fyrir afhendingu þar sem tími og fjármunir framleiðandans muni fara í að taka til varna.