Dómstóll Evrópusambandsins, ESB, hefur ógilt fyrirskipun framkvæmdastjórnar ESB um að Amazon skuli greiða 250 milljónir evra í afturvirka skatta til Lúxemborgar. BBC segir frá.

Margrethe Vestager, yfirmaður samkeppniseftirlits ESB, sagði á sínum tíma að samkomulag Amazon og Lúxemborgar frá árinu 2003 hafi falið í sér að þrír fjórðu af hagnaði netverslunarfyrirtækisins hafi ekki verið skattlagður fram til ársins 2014.

Almenni dómstóll ESB taldi framkvæmdastjórnina þó ekki hafa tekist að sýna fram á að dótturfyrirtæki Amazon í Lúxemborg hafi hlotið ólöglegar skattaívilnanir.

Þetta er í annað sinn á innan við ári sem framkvæmdastjórnin tapar skattamáli gegn stóru tæknifyrirtæki en dómstóllinn felldi niður 14,3 milljarða evra sekt á Apple síðasta sumar. Aftur á móti féll úrskurður Almenna dómstólsins framkvæmdastjórninni í hag í öðru skattamáli sem sneri að franska orkufyrirtækinu Engie sem þarf að greiða 120 milljónir evra í afturvirka skatta til Lúxemborgar.

Vestager sagði í gær að úrskurðirnir renni frekari stoðum undir að skattalöggjöf þjóða þurfi að vera í samræmi við reglur ESB um ríkisaðstoð. Hún gaf einnig til kynna að aukinn skriðþungi væri í viðræðum um alþjóðlegt lágmark á fyrirtækjasköttum eftir stuðning Biden ríkisstjórnarinnar .