Á fundi utanríkismálanefndar í dag eru fimmtán mál  á dagskrá og varða þau nánast öll reglugerðir eða tilskipanir Evrópusambandsins. Þingsályktunartillaga Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra  um að draga til baka umsókn Íslands að Evrópusambandinu er ekki á dagskrá fundarins.

Á fundi nefndarinnar 18. mars var ákveðið óska umsagna um tillögu ráðherrans sem og tvær aðrar tillögur um Evrópumálin eins og sjá má hér .

Nú er mánuður síðan frestur til að skila umsögnum rann út en samtals bárust rúmlega 150 umsagnir.

Enn er því óvíst hvað verður um tillögu Gunnars Braga og hvort hún verður yfir höfuð rædd á fyrir þingfrestun, en samkvæmt starfsáætlun þingsins lýkur því þann 16. maí eða eftir ellefu daga. Á þessum ellefu dögum eru fimm þingfundir á dagskrá.

Gunnar Bragi lagði þingsályktunartillöguna fram 21. febrúar eða aðeins nokkrum dögum eftir að skýrsla Hagfræðastofnunar um Evrópumálin var kynnt. Í útvarpsþættinum Sprengisandi á Bylgjunni í gær sagði Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins:

„Ég held að það sé öll­um ljóst að það hafi verið farið full­bratt á eft­ir skýrsl­unni fram með til­lög­una. Ég hef skiln­ing á því að mönn­um þykir sem að skýrsl­an hafi ekki fengið nægi­lega umræðu áður en til­lag­an kem­ur fram. Það er hins veg­ar ekk­ert nema eðli­legt að rík­is­stjórn­in geri grein fyr­ir vilja sín­um í mál­inu, eins og í raun er verið að gera með þess­ari þings­álykt­un­ar­til­lögu."