Utanríkisráðherra, Össur Skarphéðinsson, hefur lagt fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Tillagan er skráð sem stjórnartillaga.

Hún er lítið breytt frá þeim drögum sem kynnt voru fyrr í mánuðinum. Veigamesta breytingin felst í eftirfarandi setningu sem bætt hefur verið við greinargerðina en þar er sagt að meðal grundvallarhagsmuna sé að: „[a]ð ná fram hagstæðu og vaxtarhvetjandi samkeppnis- og starfsumhverfi fyrir atvinnulíf á Íslandi um leið og sérstöðu vegna sérstakra aðstæðna er gætt."

Því er jafnframt bætt við að stefnt sé að því að Alþingi setji á fót sérstaka Evrópunefnd Alþingis með fulltrúum allra stjórnmálaflokka er fari með samskipti við viðræðunefnd vegna ESB.

Meginefni tillögunnar er svohljóðandi: „Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að leggja inn umsókn um aðild að Evrópusambandinu og að loknum viðræðum við sambandið verði haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um væntanlegan aðildarsamning."