Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins ætlar að grípa til lagalegra aðgerða gegn ítalska seðlabankanum í næsta mánuði vegna meðhöndlunar hans á bankasamruna þar í landi og tilboðum erlendra aðila, sagði framkvæmdastjóri innri markaðar ESB, Charlie McCreevy, í gær. "Ég hef ekki enn skrifað undir bréfið, en ég býst við að gera það fyrir jól svo málaferli gegn ítalska seðlabankanum geti hafist," sagði McCreevy við Reuters í gær.

Hollenski bankinn ABN Amro sendi inn kvörtun til Evrópusambandsins og hélt því fram að Ítalíubankinn hefði verið hlutdrægur ítölsku fyrirtæki í vil þegar boðið var í Banco Antonveneta. Antonio Fazio, aðalbankastjóri seðlabankans, sem hefur umsjón með bankasamrunum á Ítalíu, hefur vísað ásökunum á bug um að hann hafi dregið taum innlendra aðila á kostnað ABN Amro og neitað að segja af sér.

Málsástæður í málinu gegn seðlabankanum munu vera að hann hafi brotið gegn frjálsu flæði fjármagns og frelsi fyrirtækja til að hefja starfsemi í öðru aðildarríki ESB en heimalandi sínu.